Björn Gíslason skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Íþrótta- og æskulýðsmál hafa lengi átt hug minn allan. Þegar ég hætti í slökkviliðinu árið 2016 gafst enn frekari tími til þess að sinna þessari ástríðu minni. Það var því stór stund þegar nýr og glæsilegur knattspyrnuvöllur var vígður í Árbænum, mínu heimahverfi, sumarið 2018. Sömu sælutilfinningu upplifði ég sama ár þegar sérstök rafíþróttadeild hóf starfsemi sína í Árbænum.
Ég þekki hversu jákvæð áhrif íþrótta- og tómstundastarf hefur á börn og ungmenni. Hreyfing og íþróttir eru nefnilega stór þáttur í heilbrigðum uppvexti. Rétt eins og skólagangan sjálf. Íþróttamannvirki eru þess vegna mikilvægir innviðir, alveg eins og skólahúsnæði eða vegakerfið.
Innviðum hefur almennt ekki verið sinnt sem skyldi í stjórnartíð vinstri meirihlutans sem stjórnað hefur í Reykjavík – með örstuttum hléum – í tæp þrjátíu ár, og dugar í þeim efnum að nefna viðvarandi viðhaldsleysi á skólahúsnæði og öðrum fasteignum á vegum borgarinnar. Þótt aðstaða sumra íþróttafélaga sé til fyrirmyndar er það þó svo að önnur hverfi hafa fallið langt á eftir. Samanburður við nágrannasveitarfélögin er okkur heldur ekki hagfelldur. Kópavogur er með fleiri yfirbyggða knattspyrnuvelli í fullri stærð en Reykjavík.
Uppbygging íþróttainnviða er fjárfesting sem skilar sér
Íþróttaaðstaða í mörgum borgarhverfum er hreinlega óboðleg og hefur verið leyft að drabbast niður. Nægir þar að nefna Laugardalinn – þar sem löngu er orðið tímabært að byggja fullnægjandi íþróttahús fyrir íþróttafélögin og skólana. Sama gildir um Vesturbæinn, þar sem aðstaðan annar hvergi nærri þeim fjölda sem í hana sækir. Það gengur ekki að efnilegt íþróttafólk úr þessum hverfum og fleirum í Reykjavík þurfi að fara bæjarenda á milli, eða í nágrannasveitarfélög, til að stunda íþrótt sína.
Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslega gagnsemi íþrótta og hreyfingar. Uppbygging íþróttainnviða er fjárfesting sem skilar sér í bættri andlegri og líkamlegri heilsu borgarbúa, með tilheyrandi sparnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Viðunandi íþróttaaðstaða er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd.
Það eru sjálfsögð mannréttindi barna að geta gengið að fyrsta flokks íþróttainnviðum innan sinna hverfa. Við eigum að tryggja börnum jafnt aðgengi að íþróttaaðstöðu, óháð búsetu. Sjálfstæðisflokkurinn vill ráðast í stórfellt átak í uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Reykjavík og tryggja viðunandi aðstöðu í öllum hverfum. Þannig sinnum við þörfum allra – afreksfólks og þeirra sem stunda hreyfingu á sínum forsendum.
Morgunblaðið, 6. maí. 2022.
Comments