top of page

Afnemum fasteignaskatt á eldri borgara

Þrátt fyrir framtaksleysi, sífellt verri þjónustu og mikla skuldasöfnun, er núverandi borgarstjórnarmeirihluti að setja met í skattheimtu. Þetta hljómar svolítið eins og öfugmæli. Hvernig getur yfirvald setið með hendur í skauti, dregið úr þjónustu og safnað skuldum, á meðan skatttekjur þess stóraukast ár frá ári? Slík stjórnviska er ekki á allra færi. Vert er að skoða þetta nánar því Reykjavíkurborg tekur mun fleiri krónur af launum borgarbúa í gjöld og skattheimtu, heldur en ríkisvaldið.

Útsvar og fasteignagjöld

Helstu tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar og fasteignagjöld. Útsvarið er beinn tekjuskattur. Fasteignagjöldin eru hins vegar af tvennum toga. Þau eru annars vegar lóðaleiga og gjöld fyrir ýmsa þjónustu sveitarfélaga, en hins vegar fasteignaskattur sem er eignaskattur á fasteignir, reiknaður sem hlutfall af fasteignamati. Útsvar er reiknað sem hlutfall af tekjum launþega en lögum samkvæmt má útsvarshlutfallið ekki vera lægra en 12,44% og ekki hærra en 14,52%. Hvert og eitt sveitarfélag ákveður svo útsvarsahlutfallið innan þessara marka. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur verið með útsvarið í löglegu hámarki um árabil. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem nýtir sér þessa leyfilegu hámarks álagningu.

Fasteignaskattur

á atvinnuhúsnæði

Lög kveða á um að leggja megi fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði sem er allt að 1,32% af fasteignamati. Sveitarstjórnum er þó heimilt að hækka álagningu í 1,65%. Þessa heimild nýtti meirihlutinn sér lengst af og var þá álagning á atvinnuhúsnæði í löglegu hámarki í Reykjavík. Viðreisn seldi sig sem varadekk undir vagn Dags B. Eggertssonar eftir síðustu borgarstjórnarkosningar með því skilyrði að þessi álagning yrði eitthvað lækkuð. Og viti menn! Fyrir ári síðan lækkaði meirihlutinn álagningarhlutfallið um 0.05 prósentustig. Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022-26 er lagt til að fasteignaskattar borgarinnar á atvinnuhúsnæði haldast óbreyttir á milli ára 2021 og 2022 í 1,60%. Á sama tíma og borgin hefur lækkað prósentuna um 0,05 prósentustig hafa hins vegar sveitarstjórnir Kópavogs og Hafnarfjarðar mætt Covid-faraldri og hærra fasteignamati með því að lækka þessa skattprósentu umtalsvert. Álagsprósentan í Hafnarfirði er nú 1,40% og í Kópavogi 1,47%. Reykjavíkurborg er með langhæsta skatthlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg fær yfir helming heildartekna af fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði á landsvísu. Gert er ráð fyrir að þessar tekjur borgarinnar verði 15,2 milljarðar á næsta ári. Það er hækkun um rúmlega 5.7 milljarða frá árinu 2016, eða tæplega milljarð á ári á þessu sex ára tímabili.

Fasteignaverðbólga

og fasteignaskattur

Hér er þó tæplega hálf sagan sögð. Staðreyndin er sú að fasteignaskattar í Reykjavík hafa hækkað miklu meira á síðasta áratug en nokkurn tíma fyrr. Ástæðan er gífurleg hækkun á fasteignum sem nú fer með himinskautum. Núverandi borgaryfirvöld hönnuðu þessar miklu fasteignahækkanir og hafa farið fyrir þeim frá því þau samþykktu Aðalskipulagið, árið 2013, sem hefur leitt til lóðaskorts- og lóðahaftastefnu í Reykjavík. Þessi lóðaskortur er megin ástæða fasteignaverðbólgunnar. Skoðum í lokin hækkanir á fasteignasköttum borgarinnar á þessum áratug. Árið 2013 innheimti Reykjavíkurborg 11,6 milljarða í fasteignaskatt. Árið 2017 var þessi skattur kominn í 15,1 milljarð, árið 2018, í 18,2 milljarða og árið 2020 í 22 milljarða. Tekjur borgarinnar af fasteignasköttum höfðu þá hækkað um tæplega 100% á sjö árum.

Fasteignaskattur

eldri borgara

Þessar gegndarlausu skattahækkanir koma auðvitað verst niður á elstu Reykvíkingunum: Þeirri kynslóð sem hefur greitt eignaskatt af heimilum sínum um áratuga skeið og sem kom okkur á það stig velferðar og hagsældar sem við nú njótum. Við eigum ekki að þakka þeim ævistarfið með því að hrekja þau úr sínu eigin húsnæði með skattpíningu. Það er því kominn tími til að afnema fasteignaskatta á eldri borgara.

63 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page