top of page

Auglýst eftir pólitískri forystu í Víðidal

Helgi Áss Grétarsson skipar 7. sæti og Jórunn Pála Jónasdóttir 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar


Í Víðidal er meðal annars byggð hesthúsa sem leggur mikilvæga undirstöðu fyrir starfsemi hestaíþróttarinnar hér á landi. Fá, ef nokkur haldbær rök hníga að því að þetta svæði, sem nú er lagt undir hesthús, víki fyrir annarri starfsemi, t.d. íbúðabyggð.

Eigi að síður steðjar viss skipulagsvandi að hesthúsabyggðinni. Reykjavíkurborg á landið undir húsunum en leigir hesthúsaeigendum landið. Af sögulegum ástæðum gilda mismunandi leiguskilmálar. Það gerir að verkum að margir hesthúsaeigenda eiga það á hættu að standa straum af kostnaði af því að láta hús sín víkja að leigutíma loknum.


Aðrir hesthúsaeigendur hafa hins vegar tryggingu í sínum samningum um að Reykjavíkurborg borgi eigendum sannvirði mannvirkjanna, sé þeim gert að víkja í lok leigutímans. Í öðrum sveitarfélögum, t.d. á Sprettssvæðinu í Garðabæ og í Kópavogi eru ákvæði um að sveitarfélagið greiði sannvirði mannvirkja komi ekki til framlengingar á lóðarleigusamningi.


Hvaða vandamál skapar misræmið?


Á það hefur verið bent af hagsmunaaðilum á svæðinu að áðurrakið misræmi skapar margvísleg vandamál. Augljósasti vandinn felst í því að húsum sé hvorki haldið við né þau endurnýjuð, vegna hættunnar á að eiganda sé gert að fjarlægja mannvirkið á eigin kostnað að leigutíma loknum. Þessi viðvarandi vandi, ásamt styttri leigutíma í samanburði við sambærilegar hesthúsabyggðir, útilokar marga eigendur hesthúsa að fá lánafyrirgreiðslu með veði í húsunum. Á heildina litið hefur þessi óleysti vandi hamlandi áhrif á þróun hesthúsabyggðarinnar í Víðidal.


Eru lausnir til?

Svo sem áður er nefnt eru sögulegar ástæður fyrir mismunandi skilmálum á lóðarleigusamningum í hesthúsabyggðinni í Víðidal. Of flókið er að rekja þá sögu í jafn stuttri blaðagrein sem þessari. Aðalatriðið er að hægt er að reikna út hvað hinir mismunandi skilmálar kostuðu á sínum tíma og núvirða þann mismun. Nærtækt er að finna það verð og bjóða lóðarleigutökum að greiða tiltekið endurgjald svo allir hesthúsaeigendur sitji við sama borð. Samhliða því mætti bjóða eigendum mannvirkjanna í hesthúsabyggðinni að fá lengri lóðarleigusamninga.


Skorturinn á pólitískri forystu


Hinn 25. júní 2020 höfnuðu borgarráðsfulltrúar flokka, sem standa að núverandi meirihluta borgarstjórnar beiðni félags hesthúseigenda í Víðidal og hestamannafélagsins Fáks, um að lóðarleigusamningar á svæðinu yrðu samræmdir og lengdir til 50 ára. Þessi niðurstaða var m.a. reist á röksemdafærslu í tilteknu minnisblaði borgarlögmanns. Andstætt þessu kom m.a. fram í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að það væri „mikilvægt að tryggja framtíð þessa hesthúsasvæðis og auka jafnræði aðila á svæðinu“.


En hér komum við að aðalefni greinarinnar. Stjórnmálamenn í borgarstjórn eru ekki bundnir af niðurstöðum embættismanna. Hægt er að taka pólitíska forystu til að leysa augljós vandamál sem engin þörf er á að borgararnir hafi hangandi yfir sér. Lýðræðislegt umboð kjörinna fulltrúa gerir þeim kleift að leysa hnútinn í málum á borð við það að samræma efni lóðaleigusamninga í hesthúsabyggðinni í Víðidal.


Morgunblaðið, 29. apríl. 2022.



15 views0 comments

Comentarios


bottom of page