top of page

Borgin er stoð­s­við – ekki aðal­leikari

Ég er ekki hefðbundinn stjórnmálamaður, og hafði raunar aldrei hugsað mér að taka þátt í stjórnmálum. Hins vegar er ég alinn upp við að vilji maður ná einhverju fram sé best að vaða í verkið sjálfur.


Undanfarna áratugi hef ég verið veitingamaður. Ég hef stofnað og rekið veitingastaði í nokkrum borgum í Evrópu. Í þeim efnum kom veganestið úr uppeldinu sér vel. Vandamálin voru fjölmörg, en sjaldnast óyfirstíganleg. Biluð loftræsting, samskipti við yfirvöld, þrif og viðhald. Eða hreinlega að gæta þess að eiga fyrir launum um mánaðamót.


Allt þetta - og meira til - þarf litli atvinnurekandinn að hlaupa í sjálfur.


Fyrir nokkrum árum flutti ég heim og hélt uppteknum hætti. Ég komst fljótt að því að ein stærsta hindrunin á vegi veitingamanna – og annarra smærri atvinnurekenda – í Reykjavík, er borgarkerfið sjálft. Kröfur leyfisveitenda eru óskýrar og ófyrirsjáanlegar, þannig að veitingamenn sjálfir þurfa að geta í eyðurnar. Kerfið er sömuleiðis svifaseint – umsóknir taka alltof langan tíma - og ekki er alltaf gætt að því að sambærileg mál fái sömu niðurstöðu.

Því má ekki gleyma að tafir og óskilvirkni kosta smærri atvinnurekendur – sem oft á tíðum hafa ekki mikið milli handanna – ómælda fjármuni.


Mín skoðun er sú að borgarkerfið eigið að virka eins og framúrskarandi knattspyrnudómari. Það er oft sagt að bestu dómararnir séu þeir sem þú tekur ekki eftir. Hið sama á að gilda um um borgarkerfið, það á að vera þarna til að styðja við atvinnurekendur og liðka fyrir því að frábærar hugmyndir komist til framkvæmda. Borgin á ekki að vera andstæðingur þeirra sem vilja hefja rekstur, og borgaryfirvöld eiga ekki að vera í aðalhlutverki. Þvert á móti gegnir borgin mikilvægu stoðhlutverki.


En það þýðir ekki að tuða af hliðarlínunni, heldur þarf að vaða í verkið sjálfur. Þess vegna ákvað ég að hefja þátttöku í pólitík. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sem styður við smærri atvinnurekendur. Flokkur sem ætlar að lækka álögur, einfalda leyfiskerfið og bæta aðgengi að atvinnulóðum í borginni.


Bætt rekstrarumhverfi í Reykjavík er öllum til hagsbóta. Við þurfum enn betri stemmningu í Reykjavík!

47 views0 comments

Comments


bottom of page