Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur:
Áralöng óstjórn hefur leitt af sér fordæmalausan hallarekstur hjá Reykjavíkurborg. Við vandanum finnast engar skyndilausnir – bregðast þarf við með ábyrgum lausnum og raunhæfum aðgerðum. Eitt skref í einu.
Digurbarkaleg arðgreiðsluáform
Útkomuspá fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir 15,3 milljarða halla af rekstri borgarsjóðs. Það er nær sexfalt meiri rekstrarhalli en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ef ekki væri fyrir væntar arðgreiðslur frá Orkuveitunni, sem nema munu fjórum milljörðum króna fyrir árið 2022, hefði hallinn verið 19,3 milljarðar.
Þrátt fyrir arðgreiðsluáform er útlitið ekki fagurt hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem tapaði 230 milljónum á þriðja fjórðungi ársins. Til samanburðar var hagnaður fyrirtækisins á sama tíma í fyrra 2,1 milljarður. Það sem af er ári er hagnaður fyrirtækisins rúmlega helmingi minni en hagnaður síðasta árs fyrir sama tímabil. Þess má vænta að borgarstjóri láti hvorki rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins né heldur fjárfestingarþörf í innviðum þess slá af digurbarkalegum arðgreiðslukröfum borgarinnar. Það er gömul saga og ný.
Máttlausar aðgerðir meirihlutans
Árið 2022 munu skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar hafa aukist um 35 milljarða milli ára. Nærri tíundu hverri krónu sem rennur í borgarsjóð er nú varið til greiðslu á vöxtum og verðbótum. Samhliða hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 25% síðastliðin fimm ár. Rekstrargjöld aukast langt umfram tekjur. Allir mælikvarðar sýna fram á óábyrgan rekstur.
Meirihluti borgarstjórnar hefur kynnt fremur máttlausar aðgerðir sem viðbragð við vandanum. Smálegar breytingar vítt og breitt um borgarkerfið sem lækkað geta hallareksturinn um einn milljarð króna á ársgrundvelli duga skammt. Huga þarf að áþreifanlegri hagræðingu í rekstrinum, minni yfirbyggingu, eignasölu og skipulegri niðurgreiðslu skulda.
Viðspyrna í vexti
Það mun taka nokkur ár og heilmikið átak að vinda ofan af áralangri óstjórn í rekstri borgarinnar. Á borgarstjórnarfundi næsta þriðjudag munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks kynna tillögur sem lækkað geta hallarekstur borgarinnar um fleiri milljarða árlega.
Tillögurnar snúa að því að draga úr fjárfestingu verkefna sem ekki snúa að lögbundinni þjónustu. Þær munu fjalla um rekstrarútboð þjónustuþátta sem einkaaðilar sinna betur en hið opinbera. Tillögur okkar munu jafnframt snúa að hagræðingu á skrifstofu borgarstjóra, fækkun borgarfulltrúa og eignasölu. Loks munum við kynna tekjuaukandi aðgerðir sem tryggja aukið lóðaframboð fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði – því viðspyrna borgarinnar mun ekki síst felast í auknum vexti.
Raunhæfar og ábyrgar aðgerðir
Það þarf breyttar áherslur og raunhæfar aðgerðir til að koma böndum á rekstur borgarinnar. Mikilvægasta aðgerðin er þó sennilega sú að skipta um meirihluta í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2022.
Comentarios