top of page

Fjármálaóreiða er hættuleg

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Við Íslend­ing­ar höf­um sem bet­ur fer átt vel­gengni að fagna í efna­hags­mál­um á und­an­gengn­um ára­tug­um, þrátt fyr­ir banka­hrun og Covid-far­ald­ur. En góðu gengi hætt­ir til að gera okk­ur kæru­laus gagn­vart óá­byrgri fjár­mála­stjórn­un: gagn­vart útþenslu bákns­ins, sóun verðmæta í gælu­verk­efni og óhóf­legri skulda­söfn­un.

Í kosn­inga­bar­átt­unni sl. vor og allt síðasta kjör­tíma­bil bent­um við sjálf­stæðis­menn á að skulda­söfn­un Reykja­vík­ur­borg­ar hefði náð sögu­leg­um hæðum á sl. ára­tug og að fjár­hags­staða henn­ar væri orðin hættu­lega bág­bor­in.

Mál­svar­ar meiri­hlut­ans neituðu hins veg­ar þess­um staðhæf­ing­um og héldu því blákalt fram að fjár­hags­staða borg­ar­inn­ar væri traust. Þetta voru dæmi­gerð póli­tísk ósann­indi og rang­færsl­ur enda munu skv. frum­varpi að fjár­hags­áætl­un skuld­ir borg­ar­inn­ar aukast um 22 millj­arða á næsta ári og verða því 464 millj­arðar í árs­lok 2023.

Það er hins veg­ar ástæða fyr­ir því að við sjálf­stæðis­menn bent­um ekki ein­ung­is á bág­borna fjár­hags­stöðu borg­ar­inn­ar, held­ur hættu­lega bág­borna fjár­hags­stöðu.

Óábyrg, op­in­ber fjár­mála­stjórn­un er alltaf hættu­leg – og hún er hættu­leg­ust þegn­un­um sjálf­um, þeim sem á end­an­um borga brús­ann eft­ir óá­byrgt svallið.

Hætt­an felst ekki síst í því að þegar komið er að skulda­dög­um lend­ir aðhaldið oft­ast á þeim sem síst mega við því, og fram­kvæmd­ir frest­ast þó þær þoli enga bið.

Nær­tækt er að nefna í því sam­hengi myglu í skól­um, al­mennt viðhald og um­ferðarör­ygg­is­mál inn­an hverfa og hverf­is­hluta. Þá má jafn­framt nefna al­gjöra lág­marks­grunnþjón­ustu eins og leik­skól­ana okk­ar en þeir verða að vera í lagi svo unnt sé að halda hjól­um at­vinnu­lífs­ins gang­andi. Við sáum það svo skýrt í vor þegar fjöldi for­eldra barna í borg­inni gat ekki sótt vinnu vegna mann­eklu á leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar.

Skelli skolla­eyr­um við ábend­ing­um og ósk­um íbúa Það er því miður eng­in ný­lunda að borg­ar­yf­ir­völd skelli skolla­eyr­um við ábend­ing­um og ósk­um íbúa. Það virðist vera regla frem­ur en und­an­tekn­ing. Íbúar þekkja, öðrum frem­ur, sitt nærum­hverfi og vita öðrum frem­ur hvar skór­inn krepp­ir. Staðan er því ekki góð þegar kem­ur að fram­kvæmd­um og fjár­út­lát­um sem þó þola enga bið í hverf­um borg­ar­inn­ar. Ekki batn­ar ástandið þegar borg­ar­yf­ir­völd hafa loks­ins áttað sig á því og viður­kennt að fjár­hag­ur borg­ar­inn­ar er á helj­arþröm. Það er miður að heyra frétt­ir af því að leggja þurfi niður starf­semi Sigl­inga­klúbbs­ins Siglu­ness sem hef­ur verið með starf­semi í yfir 50 ár og er með aðset­ur í Naut­hóls­vík. En það er ekki spurn­ing að veita fé þangað sem við náum til barna sem ekki eru í þess­um hefðbundnu íþrótta­grein­um og þar með auk­um við fé­lagsþroska þeirra. Það er ákaf­lega miður ef þarf að leggja starf­semi Siglu­ness niður og vona ég svo sann­ar­lega að þessi ákvörðun verði end­ur­skoðuð. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn lagði til við fjár­hag­sætl­un marg­ar góðar til­lög­ur um sparnað sem ekki bitna á grunnþjón­ust­unni en þær voru því miður ekki samþykkt­ar, fyr­ir utan eina sem sneri að sölu á sum­ar­bú­stað borg­ar­stjórn­ar við Úlfljóts­vatn. En það verður að segj­ast eins og er að áður en ráðist var í alla þessa upp­bygg­ingu og end­ur­nýj­un á torg­um sem hvert um sig kostaði hundruð millj­óna, hefði mátt hafa meiri fyr­ir­hyggju með hliðsjón af fjár­hags­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar. En nú er ljóst að Reykja­vík­ur­borg er kom­in í mikl­ar fjár­hags­leg­ar ógöng­ur. Við eig­um hins veg­ar að geta sparað ann­ars staðar held­ur en að ráðast á grunnþjón­ustu okk­ar þar sem um er að ræða grunn­skóla, leik­skóla, íþrótta- og tóm­stundaiðkun barna. Það hlýt­ur að vera lág­marks­krafa skatt­greiðenda í borg­inni að fjár­mun­um þeirra sé varið til grunnþjón­ust­unn­ar. Greinin birtist í Morgunblaðinu, 8. desember 2022.




3 views0 comments

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page