Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Við Íslendingar höfum sem betur fer átt velgengni að fagna í efnahagsmálum á undangengnum áratugum, þrátt fyrir bankahrun og Covid-faraldur. En góðu gengi hættir til að gera okkur kærulaus gagnvart óábyrgri fjármálastjórnun: gagnvart útþenslu báknsins, sóun verðmæta í gæluverkefni og óhóflegri skuldasöfnun.
Í kosningabaráttunni sl. vor og allt síðasta kjörtímabil bentum við sjálfstæðismenn á að skuldasöfnun Reykjavíkurborgar hefði náð sögulegum hæðum á sl. áratug og að fjárhagsstaða hennar væri orðin hættulega bágborin.
Málsvarar meirihlutans neituðu hins vegar þessum staðhæfingum og héldu því blákalt fram að fjárhagsstaða borgarinnar væri traust. Þetta voru dæmigerð pólitísk ósannindi og rangfærslur enda munu skv. frumvarpi að fjárhagsáætlun skuldir borgarinnar aukast um 22 milljarða á næsta ári og verða því 464 milljarðar í árslok 2023.
Það er hins vegar ástæða fyrir því að við sjálfstæðismenn bentum ekki einungis á bágborna fjárhagsstöðu borgarinnar, heldur hættulega bágborna fjárhagsstöðu.
Óábyrg, opinber fjármálastjórnun er alltaf hættuleg – og hún er hættulegust þegnunum sjálfum, þeim sem á endanum borga brúsann eftir óábyrgt svallið.
Hættan felst ekki síst í því að þegar komið er að skuldadögum lendir aðhaldið oftast á þeim sem síst mega við því, og framkvæmdir frestast þó þær þoli enga bið.
Nærtækt er að nefna í því samhengi myglu í skólum, almennt viðhald og umferðaröryggismál innan hverfa og hverfishluta. Þá má jafnframt nefna algjöra lágmarksgrunnþjónustu eins og leikskólana okkar en þeir verða að vera í lagi svo unnt sé að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Við sáum það svo skýrt í vor þegar fjöldi foreldra barna í borginni gat ekki sótt vinnu vegna manneklu á leikskólum Reykjavíkurborgar.
Skelli skollaeyrum við ábendingum og óskum íbúa Það er því miður engin nýlunda að borgaryfirvöld skelli skollaeyrum við ábendingum og óskum íbúa. Það virðist vera regla fremur en undantekning. Íbúar þekkja, öðrum fremur, sitt nærumhverfi og vita öðrum fremur hvar skórinn kreppir. Staðan er því ekki góð þegar kemur að framkvæmdum og fjárútlátum sem þó þola enga bið í hverfum borgarinnar. Ekki batnar ástandið þegar borgaryfirvöld hafa loksins áttað sig á því og viðurkennt að fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm. Það er miður að heyra fréttir af því að leggja þurfi niður starfsemi Siglingaklúbbsins Sigluness sem hefur verið með starfsemi í yfir 50 ár og er með aðsetur í Nauthólsvík. En það er ekki spurning að veita fé þangað sem við náum til barna sem ekki eru í þessum hefðbundnu íþróttagreinum og þar með aukum við félagsþroska þeirra. Það er ákaflega miður ef þarf að leggja starfsemi Sigluness niður og vona ég svo sannarlega að þessi ákvörðun verði endurskoðuð. Sjálfstæðisflokkurinn lagði til við fjárhagsætlun margar góðar tillögur um sparnað sem ekki bitna á grunnþjónustunni en þær voru því miður ekki samþykktar, fyrir utan eina sem sneri að sölu á sumarbústað borgarstjórnar við Úlfljótsvatn. En það verður að segjast eins og er að áður en ráðist var í alla þessa uppbyggingu og endurnýjun á torgum sem hvert um sig kostaði hundruð milljóna, hefði mátt hafa meiri fyrirhyggju með hliðsjón af fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. En nú er ljóst að Reykjavíkurborg er komin í miklar fjárhagslegar ógöngur. Við eigum hins vegar að geta sparað annars staðar heldur en að ráðast á grunnþjónustu okkar þar sem um er að ræða grunnskóla, leikskóla, íþrótta- og tómstundaiðkun barna. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa skattgreiðenda í borginni að fjármunum þeirra sé varið til grunnþjónustunnar. Greinin birtist í Morgunblaðinu, 8. desember 2022.
Comments