top of page

Fram og framtíð Úlfarsárdals

Helgi Áss Grétarsson skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins


Árið er 1983. Ég er sex ára. Liverpool vinnur Manchester United í úrslitaleik deildarbikarsins eftir framlengdan leik. Hef stutt Liverpool síðan þá. Nokkrum mánuðum eftir þennan úrslitaleik kom ég mér frá Stekkjahverfinu í Neðra-Breiðholti og arkaði í fyrsta skipti á malarvöll Fram við Safamýrina. Á enn medalíuna sem ég fékk það sumarið fyrir að taka þátt í knattspyrnuskóla Fram. Spilaði með klúbbnum sem markmaður í meira en áratug. Taugar mínar til Fram eru enn sterkar.

Fyrir skömmu skoðaði ég aðstæður í Úlfarsársdal, m.a. uppbygginguna í þágu uppeldisfélags míns. Gleðilegt var að sjá hana. Flottir fótboltavellir, glæsilegt útsýni og áferðafalleg íþróttahöll. Spennandi tímar eru framundan hjá Fram. Framkvæmdum er ekki lokið en þetta er allt í áttina.

Jú, ég er í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Ég hef áhuga á fleiru en Liverpool og Fram. Fjöllum aðeins nánar um Úlfarsárdalinn, byrjum á skipulagssögu hans.


Upphaflegu áætlanirnar um skipulag Úlfarsárdals og afdrif þeirra


Hinn 5. febrúar 2006 fjallaði Morgunblaðið um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að efna til útboðs vegna lóða í landi Úlfarsárdals. Á þessum tíma var gert ráð fyrir 15 þúsund manna byggð og að hverfið væri hannað með sjálfbærni í huga. Það átti að vera raunhæfur möguleiki að sækja vinnu í hverfinu samhliða því að skólar og þjónusta væru í göngufæri við íbúðir. Haft var eftir þáverandi formanni skipulagsráðs, Degi B. Eggertssyni, að skipulag þessa nýja hverfis væri einskonar „sambland af Fossvoginum og Árbæjarhverfinu“, byggðin myndi laga „sig að á sem rennur niður dalinn“ og svæðið tryggði „fjölbreytt húsnæðisframboð“.

Eins og margar aðrar ráðagerðir breyttust þessar í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Uppbygging Úlfarsárdals varð öll hægari og ómarkvissari. Fé skorti sem og framkvæmdagleði. Reykjavíkurborg hætti að viðhafa skilvirkt skilmálaeftirlit. Lóðir voru notaðar sem geymslustaðir fyrir skúra, rusl og gáma en ekki til að byggja á. Þótt enn beri á þessu er víða í hverfinu verið að byggja, t.d. nálægt Leirtjörn.


Augljós viðfangsefni eru til staðar


Í samræmi við almenna stefnu núverandi meirihluta borgarstjórnar eru hagsmunir notenda einkabílsins ekki hafðir í fyrirrúmi við skipulagningu Úlfarsárdalsins. Sem dæmi eru afar fá bílastæði í boði fyrir gesti sundlaugarinnar og íþróttamannvirkjanna. Erfitt er að sjá að sú stefna sé hugsuð til enda, t.d. hvar eiga allir áhorfendur að leggja bílnum þegar þeir flykkjast á leiki Fram? Einnig má augljóst vera að íbúar eru háðir einkabílnum til að sækja nauðsynjar enda hverfið enn of fámennt fyrir stóra verslun. Krónan í Grafarholti er þá nærtækasti staðurinn til að versla, enda Bónus ekki lengur að Korputorgi.

Á gildandi skipulagi er eingöngu gert ráð fyrir fremur litlu húsnæði fyrir matvöruverslun og ólíklegt að þar rísi upp verslun öflugrar matvörukeðju, líkt og fram kom á opnum íbúafundi borgarstjóra sem haldinn var í nýju menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal hinn 16. febrúar síðastliðinn. Ef gera á íbúum Úlfarsárdals kleift að sækja helstu verslun og þjónustu án bíls þarf að heimila aukna byggð á svæðinu. Einungis þannig má skapa raunhæfar forsendur fyrir öflugri þjónustu innan hverfis.


Fjölga þarf í hverfinu


Við frekari stækkun Úlfarsárdals þarf hins vegar að líta til þess að grunnskólinn er nú þegar við það að springa vegna of mikils fjölda nemenda. Mikilvægt er til framtíðar að hið óbyggða land sem kennt er við Hallar (M22) sé skipulagt á þann veg að sem flestir íbúar geti vel við unað. Skoða má hvort þar geti risið stór íbúðakjarni fyrir eldri borgara. Aðrir valkostir koma einnig til álita.

Aðalatriðið er að skipulag hverfisins á að vera raunsætt og byggt upp af framsýni, enda eiga Framarar jafnan allt gott skilið!


Höfundur skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 14. maí 2022.


Grafarvogsblaðið, apríl, 2022.

6 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page