top of page

Frystum fasteignaskatta

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lofar að frysta fasteignaskatta nái flokkurinn í meirihluta í borginni. Um er að ræða viðbragð við verðlagsþróun og hækkandi vaxtastigi. Óeðlilegt er að sveitarfélög hafi fjárhagslega hvata af hækkandi húsnæðisverði.

“Nú þegar reykvísk heimili og atvinnurekendur finna fyrir verðhækkunum á öllum vígstöðvum þurfum við að standa með fólkinu í borginni. Við núverandi kerfi hafa sveitarfélög óeðlilegan fjárhagslegan hvata af hækkun húsnæðisverðs. Þennan hvata viljum við aftengja, frysta innheimta krónutölu og leggja þannig okkar að mörkum til koma böndum á hækkandi útgjöld heimilanna”, segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Seðlabankinn hækkaði nýverið stýrivexti um 1%. Þeir eru nú 3.75% og verðbólga stendur í 7.2%. Orsakir verðbólgu og hækkandi vaxta eru margvíslegar en staðan á húsnæðismarkaði vegur þar þungt. Reykjavíkurborg hefur mistekist að sjá til þess að framboð húsnæðis haldi í við fyrirsjáanlega fjölgun íbúa í borginni samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar.

Reykjavíkurborg leggur fasteignaskatta á árlega og eru þeir reiknaðir sem prósentuhlutfall af fasteignamati viðkomandi fasteignar. Þjóðskrá, sem er ríkisstofnun, ber ábyrgð á framkvæmd fasteignamats. Borgin getur hins vegar aðlagað innheimta prósentutölu þannig að krónutalan standi í stað.

Fasteignaskattar hækkuðu um 6 milljarða króna á síðasta kjörtímabili, eða 38%. Fjárhagsspá borgarinnar gerir ráð fyrir sambærilegri hækkun á því næsta. Ljóst er því að um umtalsverða búbót yrði að ræða fyrir heimili og atvinnurekendur í borginni.


564 views0 comments

Comments


bottom of page