top of page

Lægri skattar og stærri kaka

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

„Skattaum­hverfið þarf að vera sann­gjarnt, skil­virkt og sam­keppn­is­hæft á alþjóðamarkaði. Skatt­ar þurfa að vera ein­fald­ir og skatt­kerfið má ekki letja fólk og fyr­ir­tæki. Mik­il­vægt er að skatta­leg­ir hvat­ar séu áfram nýtt­ir til að ýta und­ir fjár­fest­ingu í ný­sköp­un. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur einn flokka raun­veru­lega staðið fyr­ir lægri skött­um í gegn­um tíðina og mik­il­vægt er að fara í end­ur­skoðun á skatt­kerf­inu og auka skil­virkni þess.“ Svohljóðandi er hluti stjórn­mála­álykt­un­ar síðasta lands­fund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Heim­il­in borga hærri skatta Fast­eigna­mat hér­lend­is tók gríðarleg­um hækk­un­um um ára­mót, ekki síst á höfuðborg­ar­svæðinu. Með breyt­ing­unni hækkuðu fast­eigna­skatt­ar á íbúðar­hús­næði í Reykja­vík um 21 pró­sent, en hækk­un­in nam um 25 pró­sent­um á sér­býli. Þetta er um­tals­vert meiri hækk­un en til­kynnt var um fyr­ir ári, þegar fast­eigna­mat hækkaði um 7,4 pró­sent á land­inu öllu. Þetta er jafn­framt tals­vert meiri hækk­un en áætlan­ir borg­ar­inn­ar gerðu ráð fyr­ir.

Hækk­andi fast­eigna­mat íbúðar­hús­næðis er óhjá­kvæmi­leg af­leiðing hækk­andi hús­næðis­verðs í borg­inni. Lóðaskort­ur und­anliðinna ára og hæg hús­næðis­upp­bygg­ing hafa sann­ar­lega verið meðal megin­á­stæðna þess að fast­eigna­verð hef­ur farið hækk­andi. Það er óviðun­andi að stór­felld­ar hækk­an­ir á hús­næðis­verði skuli sjálf­krafa leiða til sam­svar­andi skatta­hækk­ana. Skatt­greiðend­ur eiga ekki að þurfa að sætta sig við aukna skatt­byrði, án þess að nein­ar þær breyt­ing­ar hafi orðið á hög­um þeirra sem rétt­lætt geta slíka skatta­hækk­un, svo sem frek­ari eigna­kaup eða hækk­andi tekj­ur.

At­vinnu­líf greiðir hærri skatta Hið nýja fast­eigna­mat leiðir jafn­framt af sér hækk­un fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði sem nem­ur 10,2% á land­inu öllu. Þetta þýðir sam­svar­andi skatta­hækk­un á at­vinnu­líf, án þess að hækk­un­inni fylgi auk­in þjón­usta til fyr­ir­tækj­anna í borg­inni. Í er­indi Fé­lags at­vinnu­rek­enda til sveit­ar­stjórna seg­ir að með hækk­un­inni muni þrír millj­arðar bæt­ast við skatt­byrði at­vinnu­lífs­ins ár­lega. Jafn­framt sagði að hækk­un álagðra fast­eigna­skatta frá ár­inu 2014 til árs­ins 2022 myndi nema um 87%. Við nú­ver­andi efna­hagsaðstæður þyrftu fyr­ir­tæki að leita allra leiða til að velta ekki hækk­un­um út í verðlag. Skoraði fé­lagið á sveit­ar­fé­lög­in að lækka álagn­ing­ar­hlut­föll með sam­svar­andi hætti.

Sjálf­stæðis­flokk­ur lækk­ar skatta Á fyrsta borg­ar­stjórn­ar­fundi nýs kjör­tíma­bils lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur til lækk­un fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði og íbúðar­hús­næði fyr­ir árið 2023. Með lækk­un­inni yrði brugðist við gríðarlegri hækk­un fast­eigna­mats. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stend­ur nefni­lega með fólki og fyr­ir­tækj­um í borg­inni þegar skór­inn krepp­ir. Við vilj­um draga úr álög­um – og tryggja sann­gjarna skatt­heimtu í Reykja­vík. Það er skemmst frá því að segja að meiri­hlut­inn hafnaði til­lög­unni. Á sama tíma lækkuðu ná­granna­sveit­ar­fé­lög­in, und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks, álagn­ing­ar­hlut­föll fast­eigna­skatta svo koma mætti til móts við hækkað fast­eigna­mat. Reykja­vík­ur­borg er því eina stóra sveit­ar­fé­lagið sem læt­ur for­dæma­lausa hækk­un fast­eigna­mats leggj­ast af full­um þunga á þegna sína.

Tryggj­um sann­gjarna skatt­heimtu Fast­eigna­skatt­ur er ekki aðeins hár í sögu­legu sam­hengi held­ur einnig í sam­an­b­urði við ná­granna­rík­in. Hvergi meðal Norður­land­anna eru tekj­ur hins op­in­bera af fast­eigna­skatti eins hátt hlut­fall af verðmæta­sköp­un og á Íslandi.

Á nýliðnum lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks var ályktað að lækka þyrfti skatt­stofn fast­eigna­skatta að fyr­ir­mynd Norður­landa með það að mark­miði að draga úr sveifl­um á skatt­stofn­in­um. Gera þyrfti þróun skatt­stofns­ins fyr­ir­sjá­an­legri. Sveit­ar­fé­lög­um þyrfti að vera í sjálfs­vald sett að ákveða hvernig fast­eigna­gjöld væru ákveðin og inn­heimt með það að mark­miði að draga úr skatt­byrði ein­stak­linga og fyr­ir­tækja.

Lækk­um skatta og stækk­um kök­una! Eitt af lyk­il­atriðum þess að efla sam­keppn­is­hæfi borg­ar­inn­ar er að lækka skatta á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki. Í dag inn­heimt­ir Reykja­vík hæsta út­svar og hæstu fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði allra sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu. Það er varla til þess fallið að auka sam­keppn­is­hæfi höfuðborg­ar­inn­ar.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mun hér eft­ir sem hingað til leggja áherslu á sann­gjarna skatt­heimtu í Reykja­vík. Við treyst­um nefni­lega fólki og fyr­ir­tækj­um bet­ur en hinu op­in­bera til að ráðstafa eig­in sjálfsafla­fé og skapa úr því verðmæti, sam­fé­lag­inu öllu til heilla. Við vit­um sem er – að hægt er að lækka skatta, en stækka kök­una um leið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.




1 view0 comments

Comments


bottom of page