Þorkell Sigurlaugsson fráfarandi formaður velferðarnefndar og varaborgarfulltrúi í Reykjavík: Eitt af því ánægjulega á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 4-6. nóvember var samþykkt ítarlegrar ályktunar um velferðarmál. Það er hvatning til forystufólks Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar að leggja aukinn þunga á þann málaflokk. Að neðan er samantekt á nokkrum þáttum úr ályktun velferðarnefndar og nokkur viðbótaratriði frá mér og mikilvægi FRELSIS í þessum málaflokki sem öðrum. Móta þarf nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu Nýta þarf betur tækifærin í opinberum rekstri og ekki síst einkarekstri ef Landspítali á að geta sinnt betur sínu kjarnahlutverk. Horfa þarf til menntunar, tækiþróunar, lýðheilsu og þarfir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks.
Efla þarf sérstaklega forvarnir og endurhæfingu og ef nefna á einn málaflokk sérstaklega þá eru það geðheilbrigðismál þar með talið ný bygging fyrir geðheilbrigðisþjónustu. Það þarf legudeild þeirra sem eru í langtímameðferð og einnig betri aðstöðu og þjónustu fyrir þá sem þurfa skammtímameðferð og dagdeildarþjónustu. Taka má undir þá umræðu að undanförnu að geðrækt ætti að vera sjálfstæð námsgrein í skólum og kennarar ættu að vera þjálfaðir til þessa verkefnis. Sama með uppbyggilega endurhæfingu og betrunarvist fanga.
Samtímis uppbyggingu LSH við Hringbraut þarf að huga að framtíðaraðstöðu fyrir aðra sjúkrahúsþjónustu. Slík sjúkrahúsþjónusta gæti verið hluti af heilbrigðiskjarna með fjölþætta þjónustu svo sem heilsugæslustöð, endurhæfingu, öldrunarlækningar og sérfræðilækna. Fara þarf í greiningu á framtíðarþörf og staðarvali fyrir slíka sjúkrahúsþjónustu og byggingu eða jafnvel nýta Landspítala í Fossvogi. Vinna þarf þetta í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Slíkt sjúkrahús og tengd starfsemi ætti að lang stærstum hluta að vera rekin af sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki.
Endurskoða þarf lífeyris- og almannatryggingakerfi m.t.t hagsmuna eldra fólks og öryrkja. Málefni eldra fólks og öryrkja ættu að vera aðskildir málaflokkar. Koma þarf til móts við þá sem búa við kröpp kjör og skapa svigrúm til atvinnuþáttöku eldra fólks og öryrkja án verulegrar skerðingar eins og er í dag.
Til viðbótar við þetta vil ég persónulega lýsa vonbrigðum með framlögð fjáraukalög sem gera ráð fyrir að eingreiðslan í ár sé skert um helming úr kr. 53.100 í kr. 27.772 og þetta hlýtur að verða lagfært í annarri umræðu fjáraukalaga. Ekki síst ber að horfa til þess að verðlag hefur hækkað svo um munar ekki síst húsnæðiskostnaður sem er öryrkjum og eldri borgurum oft afar þungbær.
Nýta þarf einkaframtakið mun betur á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga. Sjúkratryggingar Íslands verða að rækja betur hlutverk sitt. Úrbóta er þörf á ýmsum sviðum svo sem varðandi samningagerð og valfrelsi notenda við kaup á þjónustu, framfylgja eftirliti og stórauka stafrænna þjónustu. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að hafa fleiri en einn valkost þegar kemur að sjúkrahússtarfsemi og almennri heilbrigðisþjónustu eins og t.d. gildir eftir að Háskóli Íslands er ekki einn að sinna háskólamenntun.
Tryggja þarf öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðis- og velferðarþjónustu eins og best verður á kosið. Þróa þarf tækni og tækifæri til að nýta stafrænar lausnir. Samningar þurfa að liggja fyrir um kaup á þjónustu við sjúkrastofnanir og sérfræðinga á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn og jafnræði skal ríkja á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Jafna þarf aðstöðu einstaklinga með kostnaðarþátttöku í ferða- og dvalarkostnaði þegar slíkt er nauðsynlegt og einfalda ferlið við að sækja endurgreiðslu með stafrænum hætti.
Nýsköpun í velferðar- og heilbrigðisþjónustu mun stuðla að aukinni hagkvæmni og gæðum í rekstri og tækifærum til aukinna útflutningstekna. Við menntun heilbrigðisstarfsfólks og fjárfestingu er þörf á fjölbreyttum rekstrarformum og fleiri atvinnutækifærum m.a. til að auka áhuga ungs fólks á þessari starfsemi. Virkjun bæði einkaframtaks og ríkisreksturs á sviði nýsköpunar, fjárfestinga og reksturs í heilbrigðis- og velferðarþjónustu mun stuðla að auknum útflutningstekjum og hagvexti. Þetta getur komið verulega til móts við kostnað heilbrigðiskerfisins.
Húsnæðismál er ein af grunnþörfum fólks. Ítarleg umfjöllun var um þann málaflokk í ályktun velferðarnefndar, en þessi mál er í ólestri ekki síst vegna vanrækslu höfuðborgarinnar á hagkvæmum byggingalóðum, einfaldara og hraðara regluverki og vanþróaðs leigumarkaðar almennt. Sjálfstæðisflokkurinn vill að stuðlað verði að áherslu á skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðarlán til frambúðar svo og að aldraðir geti selt sína íbúðareign án þess að andvirði skerði greiðslur frá Tryggingastofnun.
Frelsi fyrir fólk og fyrirtæki Kjörorð landsfundar Sjálfstæðisflokksins var FRELSI. Velferðarmál snertir frelsi fólks, frelsi til að velja sér heilbrigðisþjónustu bæði sem þjónustuþegi og starfsmaður. Aldraðir eiga að haldi sínu frelsi en ekki sviptir því á síðasta lífsskeiðinu. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar verður að geta veiti íbúum aukið frelsi til að velja sér einstaklingsmiðaða þjónustu. Fólk utan höfuðborgarsvæðisins verður að hafa frelsi til að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem mest til jafns við höfuðborgarbúa. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að hafa frelsi til að reka heilbrigðisþjónustu og fyrirtæki á því sviði enda slíkt grundvöllur þess að fá t.d. lækna heim að loknu námi. FRELSI á alls staðar heima ekki síst í velferðarmálum.
Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki í velferðarnefnd fyrir mikið og óeigingjarnt starf og árangurinn var eftir því. Einnig þakka ég landsfundi fyrir afar góðar undirtektir og vonandi að eftir þeim verði farið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2022.
Commentaires