Þorkell Sigurlaugsson, skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Velferðarþjónusta við íbúa í Reykjavík er víðfeðmur málaflokkur og mikilvægur fyrir lífsgæði almennings, einkum eldra fólk og börn, viðkvæmustu þjóðfélagshópana. Þetta er jafnframt umfangsmesti útgjaldaliður borgarinnar, um 43 milljarðar króna árið 2021, næst á eftir skóla- og frístundamálum, og lykilatriði fyrir borgarbúa að fjármunir séu vel nýttir.
Mikil tækifæri liggja í bættri þjónustu og aukinni skilvirkni með nýrri velferðartækni, auk þess sem aðlaga má margt í velferðarþjónustunni betur að þörfum íbúa. Framfarir í heilbrigðistækni stuðla að því, ásamt nýsköpun og nýjum lausnum í fjarskipta- og upplýsingatækni, að sífellt fleiri geta starfað lengur og notið fjölbreyttra lífsgæða enda þótt aldurinn færist yfir.
Betri forvarnir og biðlistana burt
Veruleg tækifæri liggja ekki síður í öflugri forvörnum. Leggja þarf aukna áherslu á heilsueflandi þætti í formi hreyfingar og íþrótta í skólum borgarinnar og að boðið verði þar upp á viðunandi aðstöðu. Einnig þarf að grípa inn í ef grunur leikur á geðrænum eða félagslegum vanda. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur er með geðsjúkdóma sem meginskýringu. Tilraunaverkefni hafa jafnframt sýnt fram á verulegan ávinning hjá fólki eldra en 65 ára af skipulegri hreyfingu og næringarráðgjöf.
Þá þarf að styrkja samvinnu almennings, grunnskóla, frjálsra félagasamtaka og heilbrigðiskerfisins að bættu aðgengi að stuðningsúrræðum, s.s. greiningu barna og ungmenna. Snemmtæk íhlutun og aðgengi að réttu þjónustunni getur komið í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma, örorku og jafnvel sjálfsvíg. Þá eru biðlistar eftir skólasálfræðingum og talmeinafræðingum svartur blettur í velferðarmálum borgarinnar. Ástandið í þeim efnum hefur farið versnandi undanfarin ár og verður tafarlaust að snúa af þessari grýttu braut.
Málefni fólks með skerta starfsorku
Einstaklingar eiga að hafa val um að stýra þjónustu sinni sjálfir á grundvelli notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) til þess að gera sem flestum kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Reykjavíkurborg getur ekki vikið sér undan því lögbundna hlutverki. Ömurlegt að vita til þess að í áratugi hefur verið fjallað um fráflæðivanda Landspítalans. Allt of lítið hefur gerst á þessu sviði og gerði Kveikur því ágæt skil sl. þriðjudag einmitt á 20 ára afmæli Samtaka félaga í velferðarþjónustu sem var haldið á Hrafnistu.
Alltof mörg dæmi eru um að fötluðum nemendum líði illa í skólanum, einangrist og nái ekki tengslum við aðra nemendur og kennara. Þetta er málaflokkur sem snýst ekki einvörðungu um hefðbundin aðgengismál, eins og stiga og þröskulda. Hér vega einnig þungt ýmis félagsleg aðgengismál, fordómar, menntun og atvinnutækifæri.
Málefni eldri Reykvíkinga
Það er löngu tímabært að þjónusta við eldri Reykvíkinga verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Samþætta þarf miklu betur en nú er heimahjúkrun og félags- og tómstundaþjónustu auk sálgæslu. Ríki og borgin eru ekki að stilla saman strengi í þessum málum.
Reykjavíkurborg þarf að hafa frumkvæði að úthlutun lóða fyrir hjúkrunarheimili, íbúðir fyrir aldraða og þjónustukjarna. Samtal ríkis og Reykjavíkurborgar hefur verið stirt þegar kemur að verkaskiptingu og samstarfi á þessu sviði. Mikilvægt verkefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að láta ekki aldraða og öryrkja líða fyrir samskiptaleysi á milli stjórnvaldsstiga í þessum efnum.
Núverandi borgarstjórnarmeirihluti er áhugasamur um samgöngusáttmálann svokallaða og borgarstjóri kallar nú eftir húsnæðissáttmála svipaðrar gerðar af því að honum hefur mistekist að sinna húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. En hvað með velferðarsáttmála? Er ekki mikilvægt að líta fyrst í eigin barm og taka síðan upp samtal, samvinnu og gera velferðarsáttmála milli ríkis og Reykjavíkurborgar?
Hvernig farið er með eldri íbúa í Reykjavík sem þurfa félagslega eða heilbrigðistengda búsetu eða þjónustu er okkur til vansa. Eldri íbúar verða fyrir ýmsum fordómum og jafnvel mannréttindabrotum. Slíku þurfum við að útrýma eins og við höfum verið að vinna að gagnvart samkynhneigðum eða ójafnrétti kynjanna til launa eða stjórnarstarfa. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins viljum taka velferðarmálin föstum tökum. Á 20 ára afmælishátíð Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sl. þriðjudag nefndu nokkrir forsvarsmenn þessara samtaka í sínum fyrirlestrum hve langt við eigum í land með að ná þeim árangri sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa náð.
Reykjavík verður að virka betur í velferðarmálum!
Morgunblaðið, 3. maí. 2022.
Bình luận