top of page
Writer's pictureSandra Hlíf Ocares

Vill borgarstjóri selja Félagsbústaði?

Sandra Hlíf Ocares skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjaví.


Borgarstjóri stærði sig að því á dögunum að Reykjavíkurborg hefði skilað 23 milljarða hagnaði á á síðasta ári.


Þegar nánar er að gáð er staðan hins vegar allt önnur. Grunnrekstur borgarinnar er rekinn með 4 milljarða króna tapi, og borgarsjóður því ósjálfbær. Með öðrum orðum - innheimtar skatttekjur duga ekki til að reka grunnþjónustuna.


Rekstri Reykjavíkurborgar er skipt í tvennt: a) A-hluta - sem er grunnrekstur borgarinnar, þ.e.a.s innheimtar skatttekjur á tekjuhliðinni, og þjónusta til borgarbúa á útgjaldahliðinni, og b) B-hluta – dótturfélög borgarinnar, þar sem Orkuveitan og Félagsbústaðir vega langþyngst.


Þessi “hagnaður” sem borgarstjóri vísar til er að langmestu til kominn vegna breytinga á virðismati fasteigna í eigu Félagsbústaða. Virðismatshækkun þessara fasteigna nam tæpum 21 milljarði á síðasta ári.


Hækkanir á verðmati eru að miklu leyti háðar mati stjórnenda viðkomandi fyrirtækis. Það er því engin tilviljun að hækkun í nýbirtu uppgjöri – sem birt er á kosningavori – er meiri en sú sem borgarstjóra þótti óhætt að taka inn í reikninginn síðustu fjögur árin á undan samanlagt.


Nú skulum við horfa framhjá því að líkur eru til þess að Eftirlisstofnun EFTA taki endanlega fyrir uppgjörsaðferð borgarstjóra á Félagsbústöðum með tugmilljarða tjóni fyrir borgarsjóð. Hvað sem því líður er staðreyndin er þó sú að meintur “hagnaður” borgarstjóra byggist einvörðungu á lofti og fjárhagslegum loftfimleikum. Þetta eru ekki raunverulegir fjármunir sem nýtast til rekstrar.


Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið félag sem heldur utan um félagslegt húsnæði í eigu borgarinnar. Þessi 21 milljarður verður því aldrei að rekstrarfé fyrir borgarsjóð, og verður sannarlega ekki nýttur í þágu borgarbúa.


Ekki nema að Borgarstjóri ætli sér að selja Félagsbústaði?


Vísir, 28. apríl. 2022.

5 views0 comments

Comentários


bottom of page