Þorkell Sigurlaugsson, skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Undanfarnar vikur höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verið í samtali við borgarbúa og heimsótt ýmis félagasamtök og atvinnufyrirtæki. Hvort sem um er að ræða lítil eða stór fyrirtæki þá vantar mikið upp á samskipti Reykjavíkurborgar við starfsfólk og stjórnendur fyrirtækjanna og frumkvæði borgarinnar er lítið.
Reykvíkingar hafa liðið fyrir áratuga frestun Sundabrautar, síversnandi umferðarástand og óviðunandi almenningssamgöngur. Sundabraut ætti að vera komin og myndi auðvelda alla fólksflutninga og vöruflutninga og jafnframt greiða fyrir þróun byggingarmöguleika á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi, bæði fyrir íbúðarhúsnæði af ýmsum gerðum og atvinnuhúsnæði. Álag um Ártúnsbrekku væri verulega minna en í dag.
Stórbæta þarf tengsl við atvinnulífið í borginni
Þegar stjórnkerfi borgarinnar er skoðað, þá er því skipt upp í átta svið og sviðsstjórar fara með stjórn sviðanna í umboði borgarstjóra; fjármála- og áhættustýringarsvið, íþrótta- og tómstundasvið, mannauðs- og umhverfissvið, menningar- og ferðamálasvið, skóla- og frístundasvið, umhverfis- og skipulagssvið, velferðarsvið og að lokum þjónustu- og nýsköpunarsvið.
Þrátt fyrir að enginn hörgull sé á starfsfólki hjá borginni virðist ekkert svið eða deild hafa það hlutverk að sjá um samskipti og þjónustu við atvinnufyrirtækin í Reykjavík og þeirra þarfir og framtíðarsýn. Þetta sést bersýnilega á því að borginni hefur mistekist að standa vörð um velferð og þróun atvinnufyrirtækja i borginni og marka stefnu í þjónustu og lóðaframboði fyrir atvinnulífið.
Stöðvum flótta fyrirtækja frá borginni
Regluleg samskipti og samstarf við fyrirtækin er grundvallaratriði við þróun borgarinnar. Núverandi meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík hefur vanrækt þessi atvinnulífstengsl.
Lítið hefur verið gert til að koma í veg fyrir að fyrirtæki hverfi úr borginni eða að laða ný fyrirtæki til borgarinnar, s.s. með því að bjóða fyrirtækjum utan Reykjavíkur áhugaverðar lóðir eða húsnæði í borginni. Það var afdrifaríkt þegar Marel fór frá Höfðabakka 9 árið 2002 í Garðabæ. Nú er það verðmætasta almenningshlutafélag landsins með mörg hundruð starfsmenn hér á landi og um 7.000 víða um heim. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins flutti til Kópavogs árið 2016, höfuðstöðvar Íslandsbanka fluttu til Kópavogs í lok sama árs og Tryggingastofnun ríkisins til Kópavogs árið 2019. Starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut flutti einnig í Kópavog árið 2019. Hafrannsóknastofnun fór 2020 til Hafnarfjarðar, ýmis heilbrigðisfyrirtæki í Urðarhvarf í Kópavogi árin 2019-2021 og Vegagerðin til Garðabæjar 2021.
Þá fyrirhugar Tækniskólinn nú flutning til Hafnarfjarðar svo og Icelandair. Víkingbátar, öflugt og ört vaxandi fyrirtæki sem framleiðir litla og allt upp í 30 tonna smábáta úr trefjaplasti, er að fara til Hafnarfjarðar. ILVA fór af Korputorgi í Kauptún í Garðabæ og Sólar ræstingar, næststærsta ræstingafyrirtæki landsins með um 400 starfsmenn, flutti nýlega til Hafnarfjarðar, en það stærsta, Dagar, er í Garðabæ. Bara nokkur dæmi. Auðvitað eiga sumir flutningar sér eðlilegar skýringar, en flótti fyrirtækja er orðinn óþægilega mikill.
Samráðsleysi um samgöngumál
Góðar samgöngur skipta fyrirtækin miklu máli, bæði hvað varðar aðkomu og bílastæði fyrir viðskiptavini og síðan aðstöðu til að keyra út vörur. Tafir í umferðinni og erfið aðkoma víða að verslunarhúsnæði m.a. vegna breytinga á gatnakerfi veldur miklum erfiðleikum og aukakostnaði.
Borgaryfirvöld þurfa að hlusta á eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna. Fyrirtækin í borginni hafa ekki verið mikið spurð um samgöngusáttmálann eða borgarlínu. Ekki kæmi á óvart að sumar verslanir og fyrirtæki við Suðurlandsbraut fari að hugsa sér til hreyfings, nái fyrirætlanir vinstri meirihlutans fram að ganga að rífa upp þá götu með ærnum tilkostnaði og setja borgarlínu á rauðan dregil á miðjuna. Við það mun akreinum fyrir almenna umferð fækka um helming eða úr fjórum í tvær og vinstri beygjur verða bannaðar sökum forgangsakreinarinnar í miðjunni. Ljósastýringu þarf svo að setja við gangbrautir fólks sem þarf að komast yfir götuna að stoppistöð borgarlínunnar, sem er á miðri götunni, með tilheyrandi umferðartöfum.
Framkvæmdir af þessu tagi taka jafnframt mörg ár með töfum og tjóni fyrir íbúa jafnt sem atvinnulífið á svæðinu. Suðurlandsbraut er í fyrsta áfanga borgarlínu og þessi útfærsla verður ekki samþykkt af Sjálfstæðisflokknum frekar en aðrar slæmar útfærslur vinstri meirihlutans sem eiga eftir að dúkka upp. Þetta er bara byrjunin, vísir að því sem koma skal. Það eru aðrar leiðir færar. Svona aðför að einum samgöngumáta setur eðlilega bílaumferð og atvinnulíf á svæðinu úr skorðum.
Það eru aðallega þrír hópar viðskiptavina sem skipta borgina mestu máli og hún á að þjóna. Það er fólkið í borginni, fyrirtækin og ferðamennirnir . Sjálfstæðisflokkurinn vill að borgin virki fyrir alla þessa hópa og kallar eftir stuðningi frá þér, kjósandi góður, næstkomandi laugardag, hinn 14. maí.
Morgunblaðið, 12. maí. 2022.
Comments