top of page

Árbæjarlónsmálið er stærra en það sýnist

Helgi Áss Grétarsson skipar 7. sæti og Jórunn Pála Jónasdóttir 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar


Margir íbúar Árbæjarhverfisins voru „miður sín yfir því að Orkuveitan hafi ákveðið að tæma Árbæjarlónið til frambúðar“, eins og Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt, sagði í viðtali við visir.is., hinn 14. nóvember 2020. Reynir tjáði sig áfram um málið á íbúafundi í Árbæjarskóla með borgarstjóra hinn 3. mars sl. og taldi að „gífurlega mikið hefði verið tekið af hverfinu“, m.a. vegna þess að fuglalífið á svæðinu hefði minnkað sem og fegurðin er hlaust af speglun lónsins. Hann spurði svo borgarstjóra á íbúafundinum af hverju þetta hefði gerst áður en „málin hefðu verið rædd?“

Sem svar við þeirri spurningu sagði borgarstjóri efnislega að í fyrsta lagi hefði verið illa staðið að málinu, lóninu hafi verið lokað án umræðu – „þetta hefði bara verið gert, órætt“. Í öðru lagi bar borgarstjóri því við að ljósi tiltekinnar lagalegrar yfirferðar hefðu kjörnir fulltrúar borgarstjórnar ekki getað ákveðið að setja tappann í lónið og fylla það aftur. Um þetta lagaatriði „er núna deilt“, sagði borgarstjóri.

Með vísan til þessara orðaskipta á íbúafundinum 3. mars sl. er ástæða til að rifja upp eitt og annað í tengslum við sögu Árbæjarlónsins.


Sagan rifjuð upp


Dönsku konungshjónin Kristján X og Alexandrína vígðu Elliðaárvirkjun hinn 27. júní 1921. Rekstur Elliðaárvirkjunar stóð óslitið til ársins 2014 en þá bilaði aðrennslipípa að virkjuninni. Síðan þá hefur virkjunin verið ónotuð en sumarið 2018 höfðu forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur áform um að nýta virkjunina á nýjan leik og koma af stað rafmagnsframleiðslu sem myndi duga til að hlaða 3.000 rafbílum fyrir rafmagni á ári, sbr. sjónvarpsfrétt RÚV frá 5. júní 2018.

Tveimur árum síðan héldu embættismenn Orkuveitu Reykjavíkur og Hafrannsóknastofnunar fund um varanlega landmótun við Elliðaárnar fyrir ofan Árbæjarstíflu og var þá ákveðið að tæma Árbæjarlónið með því að opna allar lokur virkjunarinnar. Ekkert samráð var haft við aðra áður en þessari ákvörðun var hrint í framkvæmd og fréttu margir af henni í sjónvarpsfréttum, þ.m.t. stjórn Orkuveitu Reykjavíkur en Reykjavíkurborg á 93,539% hlut í því fyrirtæki.

Engin pólitísk forysta hefur verið til staðar að breyta þessari skipan mála en embættismenn halda því fram að lagaákvæði standi því í vegi að fylla lónið aftur, sbr. t.d. minnisblað sem tekið var saman af Svövu S. Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, dags. 9. nóvember 2020.


Árbæjarlón er víða


Það eru þekkt vinnubrögð hjá núverandi meirihluta borgarstjórnar að taka ákvarðanir án fullnægjandi samráðs við íbúa eða þá að kjörnir fulltrúar feli sig bak við her embættismanna við að verja umdeildar ákvarðanir. Eitt dæmi um slíkt er hvernig borgaryfirvöld tóku á myglunni í Fossvogsskóla og annað hvernig staðið var að upplýsingagjöf um þéttingu byggðar við Bústaðaveg, sem meirihlutinn að lokum dró svo til baka.

Svo orðalag úr bókinni Englum alheimsins sé endurorðað: Árbæjarlón er víða.

Helgi Áss skipar 7. sæti og Jórunn Pála 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 14. maí 2022.


Árbæjarblaðið, apríl. 2022.

4 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page