top of page

Það snjóar „aldrei“ í Grafarvogi

Helgi Áss Grétarsson skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins


Í þau skipti sem ég hef heimsótt Vestmannaeyjar hefur mér ósjaldan verið sagt af heimamönnum að þar sé aldrei hvasst. Þessi húmor heimamanna gæti villt um fyrir gestum eyjunnar grænu sem ekki hafa upplifað þau vályndu veður sem þar geta verið.

Og núna þegar teikn eru á lofti að vorið sé að nálgast í Reykjavík þá gæti veðurminni Íslendingsins haldið að þar snjói aldrei, svo sem í Grafarvogi. Veðrið er nefnilega svo oft snúið á Íslandi að annað hvort er best að flýja það með því að skreppa til útlanda, svo sem eins og Tenerife, eða þá gleyma leiðindatímabilum í veðrinu, svo sem þegar aldrei sést til sólar á sumrin, hvassviðrið virðist engan enda ætla að taka eða þá þegar það snjóar endalaust.

Þótt valminni í veðurfarslegu tilliti er heppilegt fyrir alla sem búa á Íslandi þá er sérstök ástæða fyrir íbúa í austari hluta Reykjavíkur, þar með talið Grafarvogsbúa, að muna eftir snjókomunni veturinn 2022. Ástæðan er einföld, snjómoksturinn í Reykjavík var ófullnægjandi og skapaði óþarfa gremju og leiðindi. Um þessi atriði var borgarstjóri m.a. spurður á íbúafundi Grafarvogs sem haldinn var í Rimaskóla 31. mars síðastliðinn.


Hvað hafði borgarstjóri að segja um snjómoksturinn í vetur?


Eins og á sumum öðrum íbúafundum borgarstjóra sem haldnir hafa verið á árinu vísaði hann m.a. til þess að „það eru einhverjir fjórir vetur á síðustu 100 árum sem voru jafn hvítir eins og þessi febrúar“ og nokkru síðar í þessu sama svari velti hann vöngum yfir því hvort það „getur verið að við eigum von á meiri öfgum í veðri vegna loftslagsbreytinga“ Sem sagt, samkvæmt borgarstjóra var veturinn í ár var svo erfiður að ekkert var við ráðið.

Bíddu, gengur þetta upp?

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands (https://www.vedur.is/um-vi/frettir/tidarfar-i-februar-2022-1) voru fleiri alhvítir dagar í febrúarmánuði árið 2016 en þeir voru í ár. Alhvítir dagar í ár voru 24 en þeir voru 27 árið 2016. Vissulega var snjómagn meira í ár en 2016 en það breytir því ekki að eitthvað fór úrskeiðis í snjómokstri vetrarins í ár. Sem dæmi var meira snjómagn í Reykjavík í febrúar 2000 en núna í ár og þá voru ekki svona mikil vandræði vegna slælegs snjómoksturs. Þess fyrir utan eru snjóþyngsl í Reykjavík engin nýlunda, til að mynda var snjóþungt í desember 2014, desember 2011 og janúar 2012. Einnig má til gamans geta þess að hægt er að finna frétt á miðlinum grafarvogsbuar.is, dags. 29. nóvember 2015, þar sem segir frá mesta snjó „í Reykjavík í áratugi. Mokstur gengur vel og hefur verið unnið að því að hreinsa húsagötur alla helgina.“


Til hvers að karpa um mat á veðri og gæði snjómoksturs?


Ástæðan fyrir framanrakinni greiningu á veðrinu og snjómokstrinum í vetur er að höfuðborgarbúar eiga að gera þá kröfu að Reykjavíkurborg sinni grunnþjónustu eins vel og hægt er. Forgangur fjármagns og mannauðs á að fara í að hlúa að hagnýtum verkefnum sem auðvelda daglegt líf borgarbúa. Snjómokstur er þar á meðal. Sama hvað núverandi borgarstjóri reynir að breiða yfir vinnubrögð vetrarins þá má ekki fenna yfir það klúður sem snjómoksturinn í ár var.

Það snjóar nefnilega víst í Grafarvogi!


Höfundur skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 14. maí 2022.


Grafarvogsblaðið, apríl. 2022.

6 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page