top of page

Þrífum borgina allt árið og öll ár, ekki bara á kosningaári

Björn Gíslason skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins


Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að verja 20 milljónum króna til viðbótar í vorhreinsun gatna- og stígakerfis borgarinnar. Það er í sjálfu sér gott mál enda ekki vanþörf á að borgarlandið sé vel hirt og þrifið. Ekki var þó hjá því komist, við þetta tilefni, að benda á að samþykktin fól eingöngu í sér viðbótarframlag til þrifa í aðdraganda kosninga, en nær hefði verið að þrífa borgarlandið allt árið og öll ár, ekki bara á kosningaári.


Þá bentum við sjálfstæðismenn jafnframt á að eingöngu væri verið að ráðstafa þessu viðbótarframlagi til þrifa á stígum meðfram stofnbrautum, en ekki inn í úthverfunum sem verður að teljast óheppilegt. Hér þarf borgin nefnilega að gera svo miklu betur, enda óhætt að segja að mörgum Reykvíkingum, á síðasta kjörtímabili, hafi blöskrar hirðuleysi Reykjavíkurborgar, bæði hvað varðar snjómokstur og almenna hreinsun gatna. Og þá sérstaklega inn í úthverfunum.


Snjómokstri verði sinnt betur en í vetur

Borgarbúar verða nefnilega að geta gert þá kröfu að snjómokstri sé sinnt mun betur en í vetur, en íbúar úthverfanna muna vel eftir vetrinum sem var svo slæmur að íbúar komust í einhverjum tilfella ekki til og frá vinnu. Íbúar verða jafnframt að geta gert þá kröfu að borgarbúum sé gert auðveldara fyrir að njóta útiverunnar í borginni með því að þrífa, hirða rusl í kringum ruslatunnur og sópa göngu-, hjóla- og hlaupastíga mun oftar en nú er gert. Sandur á stígum- og hjólastígum getur nefnilega orsakað mikla slysahættu, svo ekki sé nú talað um svifryikið sem af þessu hlýst, sem er hreinlega heilsuspillandi.


Í þessu samhengi er rétt að rifja upp hversu stórundarlegt það er að svifryksmengun hérlendis, í ekki nema 136 þúsund manna borg, á tímum kórónuveirufaraldursins, þar sem umferð var í algjöru lágmarki, hafi jafnast á við mengunina í stórborgum erlendis. Ástæðan fyrir því var og er einföld: Göturnar voru hvorki þvegnar né rykbundnar eins oft og þarf að gera til að draga úr svifryksmenguninni. Þetta sannaði kórónuveirufaraldurinn, svifrykið mældist mikið þrátt fyrir litla umferð bíla.


Drögum úr svifryksmengun

Almennt séð á borgin að ganga á undan með góðu fordæmi, halda borgarlandinu hreinu og snyrtilegu. Sú aðgerð mun hjálpa til við aðrar markvissar aðgerðir til að draga úr svifryksmenguninni, enda geta ábyrg borgaryfirvöld ekki unað því að rekja megi allt að 80 dauðsföll á ári til svifryksmengunar. Með því að koma þessu í lag munum við auka lífsgæði og betri loftgæði borgarbúa, sem er þjóðþrifamál sem allir eiga að láta sig varða.


Við höfum metnað til að gera betur

Við sjálfstæðismenn höfum skilning á mikilvægi þessarar grunnþjónustu, sem bæði þrif og snjómokstur eru. Þrátt fyrir að ráða ekki við veðrið getum við engu að síður búið okkur undir erfiðar aðstæður. Þannig er það engin afsökun að geta ekki brugðist við snjómokstri svo dögum skiptir eða þrifum. Við sjálfstæðismenn höfum metnað til að gera betur í þessum efnum og munum við leggja okkur í líma við að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að bæði þrifum og mokstri gefi borgarbúar okkur tækifæri til þess í komandi kosningum.

5 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page